Dagur íslenskrar náttúru 16. september var nýttur til útiveru og landgræðslu hjá okkur í Þjórsárskóla. Allir nemendur skólans fóru í hjólaferðir. 1. og 2. bekkur hjólaði um nánasta umhverfi skólans. 3. og 4 bekkur hjólaði að Skaftholtsfjalli og hitti þar nemendur í 1. og 2 bekk sem voru keyrðir þangað. Þessir fjórir bekkir gengu upp á Skaftholtsfjall og skoðuðu tilraunareitina í Vistheimt verkefninu okkar. Þar hittu þau Sigþrúði Jónsdóttur hjá Landgræðslunni og fræddi hún þau um uppgræðslu landsins. Síðan fóru þau í verkefni við uppgræðslu. Notuð var heyrúlla og þau dreifðu heyi um svæðið. Við höfum farið þangað í nokkur ár að græða landið.
5.-7 bekkur hjóluðu Hælshringinn. Hjólað er að Ásaskóla, yfir Kálfá, upp hjá Austurhlíð og framhjá Hæli og að skólanum. Einar á Hæli kom til að ferja okkur yfir ána en flestir létu sig hafa það að reyna að hjóla yfir ána sem er erfitt þar sem hún er frekar grýtt. Þegar yfir var komið vildu flestir reyna aftur að hjóla yfir. Sumir hlupu yfir ána. Það voru blautir en ánægðir nemendur sem héldu hjólandi áfram í skólann. Við vorum einstaklega heppin með veður þennan dag. Sólin skein og það var hlýtt en vindurinn var aðeins að blása. Nemendur voru mjög duglegir í ferðinni og má með sannri segja að gleði og ánægja ríkti í hópunum

.

Í fyrstu vikunni á skólanum förum við árlega í útilegu inn í Þjórsársdal. Lagt var af stað á fimmtudegi og byrjað var á því að vinna á fjölbreyttum stöðvum. Þar vorum við að grisja, vinna með íslensk orð, tálga, skoða skordýr og plöntur og undirbúa aðstöðuna okkar. Seinnipartinn voru síðan settar upp tjaldbúðir. Um kvöldið naut fólk veðurblíðunnar og átti góðar stundir saman.

Gist var í tjöldum sem nemendur settu sjálfir upp með aðstoð. Á föstudagsmorgninum var síðan farið í ratleik þar sem nemendur leystu hinar ýmsu þrautir og áherslan var á samvinnu eldri og yngri nemenda.

Útilegan var vel heppnuð og er góður liður í að efla samheldni í hópnum eftir sumarið.

 

1  2

3  4

Á öskudaginn mættu nemendur og starfsfólk í búningum í skólann. Fram til kl.10 voru nemendur í heimastofunum sínum þar sem teknar voru myndir, spjallað og sprellað. Þá var farið á öskudagsball í Árnes þar sem Jón Bjarnason lék fyrir dansi og kötturinn var sleginn úr tunnunum. Foreldrafélagið bauð upp á veitingar.  Mikil gleði og mikið fjör.

Tunnurnar eru búnar til úr endurunnu efni og það eru nemendur í 4. og 7. bekk sem sjá um að skreyta þær ár hvert.

Myndir hafa verið settar inn á heimasíðuna.

Blár apríl er árlegt vitundarátak Styrktarfélags barna með einhverfu. Blár er alþjóðlegur litur einhverfu. Rétt eins og blæbrigði litarins eru birtingarmyndir einhverfu óteljandi því hver einstaklingur hefur sinn stað á rófinu með öllum þeim áskorunum sem fylgja einhverfu.

Við í Þjórsárskóla tókum þátt í átakinu og allir mættu í einhverju bláu föstudaginn 10. apríl.1

mynd 1

Miðvikudaginn 17. desember fengum við góða gesti úr ART teymi Suðurlands til okkar í heimsókn. Kolbrún, Sigríður og Bjarni veittu skólanum ART vottun. Nú eru allir umsjónarkennarar búnir að fara á réttinda námskeið, ART tímar eru fastir á stundatöflum nemenda, starfsfólk skólans hefur fengið kynningu, og ART er sýnilegt í námskrá og skipulagi skólastarfsins.  

Hafdís kennari sagði frá þróun okkar í ART kennslu síðan 2008. Þá sagði nemandi í 5. bekk frá reynslu sinni af ART og hvernig hann hefur notað þær aðferðir til þess að hjálpa sér og bæta sig í samskiptum.

Sigrún, heimilisfræðikennari sá um veitingar og allir nemendur skólans höfðu lagt sitt af mörkum í undirbúningi. Þá hafði t.d. hver árgangur bakað eina smákökusort og því var boðið upp á 7 tegundir af jólasmákökum og heitt kakó.

Við erum mjög stollt af skólanum okkar.